header1

 

Byggðastefna LBL

               

                       Leiðarljós.

 1. Meginmarkmið með gerð byggðastefnu er að móta heildstæða stefnu um land og nýtingu lands.
 1. Búsetu fólks, öryggi og velferð allra sem landið byggja.
 1. Engin er mikilvægari en annar, öll erum við jafn þörf.
 1. Stefnt skal að því að gera landið sjálfbært á öllum sviðum. Tryggja þarf atvinnu ,matvælaöryggi, hita, rafmagn , hreint og ómengað vatn og fjarskipti.
 1. Jafnrétti til sem flestra hluta er lykill að velmegun íbúanna. Jafnrétti eykur búsæld um land allt. Íbúalýðræði verði aukið, ákvarðanataka og hagsmunagæsla sé tryggð.
 1. Ekki verði hægt að mismuna íbúum landsins eftir búsetu. T.d. með verri lánakjörum eða lélegri fyrirgreiðslu. Það skerðir lífskjör og veldur mismunun.
 1. Landshlutar eða landssvæði verði fjárhagslega sjálfstæð eins og kostur er. Kemur í veg fyrir fyrirgreiðslupólitík eins og stunduð er í dag og þar með mismunun af verstu gerð.
 1. Landbúnaðarland verði varðveitt til áframhaldandi landbúnaðarframleiðslu. Landbúnaðarafurðir verði unnar eins nálægt uppruna sínum og hægt er.                                                     Aðeins þannig verður tryggt að gott landbúnaðarland verði til afnota fyrir komandi kynslóðir
 1. Sameiginlegar auðlindir landsins verði í eigu þjóðarinnar.                                                                                                                                                                                                       Greitt skal fyrir afnotarétt auðlinda. Auðlindir verði nýttar eins nálægt upptökum sínum og hægt er.
 1. Menntun þjóðarinnar verði fjölbreitt og lifandi. Menntun fari fram eins nálægt búsvæði fólks og kostur er.                                                                                                                        Gert verði átak í starfsmenntun og verkmenntun.   Menntun er nauðsynlegur þáttur í framþróun þjóðarinnar.  Þó má ekki gleyma að þeir sem kjósa að sækja ekki framhaldsmenntun þurfa einnig að lifa og því má ekki útiloka fólk, með aðeins grunnmenntun, frá vinnumarkaði.  Það eru einnig sjálfsögð mannréttindi að fólk fái að eldast þar sem það býr eða kýs að búa. Eldri borgarar þurfi ekki að flytjast búferlum frá sínum átthögum vegna þess að engin öldrunarþjónusta eða dvalarheimili sé fyrir hendi.
 1. Öll lán eru miðuð við vísitölur sem eru ekki í takti við launakjör fólks í landinu. Lán ættu að miðast við launavísitölu. Þá getur venjulegt launafólk tekið lán til framkvæmda eða viðhalds.  Eins og staðan er nú veit engin hvað hann þarf að greiða af lánum sínum. Ef miðað er við launavísitölu fylgjast laun og lán að. Þannig helst framfærslan í takt við laun og síður verður forsendubrestur á lánum.
 1. Möguleiki á að stýra búsetu með sköttum er fyrir hendi því ekki að nota þann möguleika. Það er ekkert auðveldara til að stýra byggð í landinu en skattar.  Á meðan engin fríðindi fylgja því að búa á landsbyggðinni verður það ekki eftirsóknarvert.                                                                                                                                                                                      Vöruverð er hærra en í þéttbýli, akstursvegalengdir meiri, þjónusta sótt um langan veg og jafnvel akstur um 100-200 kílómetrar til þess eins að kaupa í matinn. Þá er ótalið að flestar barnafjölskyldur í dreifbýli þurfa um lengri eða skemmri tíma að halda tvö heimili þegar börn sækja framhaldsskóla. Þetta og margt annað eru dæmi um mismunun sem hægt er að lagfæra gegnum skattakerfið.
 1. Til þarf að vera rýmingaráætlun fyrir öll byggðalög landsins einnig höfuðborgarsvæðið. 

  Er landsbyggðin í stakk búin til að taka við flóttafólki af suðvesturhorninu ef til kemur?    

  Það má ekki rýra getu landsbyggðarinnar til slíkra verka.

  Fljótlegasta leiðin burt af svæði sem er í hættu er flugleiðin.  Næst er akstursleiðin.  Seinlegust er sjóleiðin.                                                                                                                    Það er ekki ásættanlegt að öll þjónusta byggist upp á einum stað og beinlínis hættulegt.  Engin veit hvar næsta náttúruvá gerir vart við sig. Vörumst að storka örlögunum. Hvert eiga íbúar höfuðborgarsvæðisins að hverfa ef váin verður þar. Munum eftir Vestmannaeyjagosinu. Einnig er gott að minnast þess hvað menn byggðu upp góða varaflugvelli á sínum tíma. Þessir vellir sönnuðu notagildi sitt í þeim tveimur gosum sem dunið hafa á okkur nú nýverið. Ef leiðin út á Reykjanesskaga teppist er og getur verið lífsspursmál fyrir Reykvíkinga að hafa flugvöll í Reykjavík. Einnig er það lífsspursmál fyrir landsbyggðafólk að flugvöllur sé nálægt höfuðstöðvum landsins.     Stjórnsýslu, markaðsmálum, fjármálaumsýslu og síðast en ekki síst sjúkrahúsþjónustunni sem alla virðist eiga að flytja á einn stað. 

 1. Núverandi peningastefna í byggðamálum felst í því að allt fjármagn fer á einn stað. Þaðan er því deilt út til staðanna aftur. Skoða þarf að auka sjálfstæði landshluta í fjármálum. Þetta kerfi býður upp á spillingu og fyrirgreiðslu á frekar lágu plani. Þetta er óhagstætt fyrir alla þegna þjóðfélagsins og mikið fjármagn fer til spillis með núverandi kerfi. Bara sú breyting skapar mörg ný störf á landsbyggðinni .Hingað til hafa sveitarstjórnarmenn þurft að setjast upp á þingmenn til að fá minnstu fyrirgreiðslu og oftar en ekki farið fýluför.
 1. Allir sem byggja landið eiga að hafa óheft aðgengi að opinberum byggingum, götum og torgum. Einnig þarf að sjá til þess að opinberar stofnanir þjóni öllum íbúum jafnt. Flestar stofnanir eru á sama stað það er í höfuðborginni.                                                                                                                                                                                                            Fólkið sem vinnur á stofnunum er okkar starfskraftur og því er mikilvægt að viðskiptavinir finni að þeir séu viðskiptavinir en ekki þjónar stofnanna. Það leiðir af sér að íbúar landsbyggðarinnar þurfa oft að sækja erindrekstur um langan veg. Þetta kostar tíma, fjármuni og oft á tíðum fyrirhöfn. Þess vegna er mikilvægt að þjónustan sé fyrir hendi og þjónustulundin sé góð.            

                                                                                                            

 Búseta:

Sveitir.

Í öllum landshlutum eru sveitir. Sveitirnar eru lífæð matvælaframleiðslu.

Markmið byggðastefnu eru:

 1. Að halda þeim sveitum sem eru nú í byggð áfram í byggð. Markmið byggðastefnu er að sveitirnar sem nú eru í byggð eflist og geti orðið sjálfbærar.
 1. Að viðhalda matvælaframleiðslu í landinu og efla vinnslu matvæla sem næst markaði. Einnig að efla skógrækt og ræktun til lífdíselframleiðslu, án þess að taka mjög gott landbúnaðarland, meðfram hefðbundnum landbúnaði.
 1. Að vera með þjónustu sem næst notendum.
 1. Að skilgreina þá þjónustu sem hæfir sveitum og hversu nærri meiri þjónusta á að vera. Gera þarf sveitum kleift að sækja stærri þjónustu á eins skömmum tíma og á eins greiðfærum leiðum og kostur er.

                                                        

Sjávarþorp.

 Meðfram mest allri strönd Íslands eru misstórar sjávarbyggðir.  Þessar sjávarbyggðir eru lífæðar landsbyggðarinnar og afla mikilla gjaldeyristekna.

Markmið byggðastefnu eru

 1. Að gera lífvænlegt í sjávarbyggðum landsins.
 1. Að viðurkenna lifibrauð þeirra sem búa við sjávarsíðuna.  d. með því að festa kvóta á sjávarþorpin sem ekki yrði hægt að flytja burt frá þorpinu.
 1. Að taka tillit til staðsetningar byggðarinnar t.d. er snjólétt eða snjóþungt ? Er langt í næsta stóra byggðakjarna. Eru samgöngur í lagi.
 1. Að skilgreina lámarksþjónustu sem þarf að vera miðað við fjölda íbúa.
 1. Að skilgreina hve langt má vera í stærri þjónustu. Einnig hvaða þjónusta þarf að vera til staðar til að byggðin eflist.

                                                                        

Sveitaþorp.

Fá sveitaþorp eru á landinu. Þau eru mikilvæg fyrir matvælaöryggi og þjónustu við nágrannasveitir.

Markmið byggðastefnu

 1. Að viðurkenna sveitaþorp sem sjálfstæða einingu með takmarkaðri þjónustu.
 1. Að efla og þroska það sem einkennir atvinnu og atvinnumöguleika hvers og eins sveitaþorps.
 1. Að sveitaþorp geti borið sig sjálf með þeirri þjónustu sem nauðsynleg er til lífsviðurværis.

                                                  

                              

Bæir, Kaupstaðir.

Markmið byggðastefnu:

 1. Að kaupstaðir geti verið sjálfum sér nógir um flest. Og að viðurkenna þá atvinnu sem fyrir hendi er í kaupstöðunum.  d. festa kvóta á kaupstaðina.
 1. Að taka tillit til sérstöðu hvers kaupstaðar fyrir sig og næra það atvinnulíf sem best þrífst í viðkomandi kaupstað.
 1. Að öll grunnþjónusta sé veitt á staðnum. Að greiðfært sé í þá þjónustu sem er í boði.
 1. Að greiðfært sé í stærri þjónustu
 1. Að taka tillit til erfiðleikastuðuls búsetu t.d. veðurfars á vetrum stuðst við snjómælingar undangengin ár.
 1. Að kaupstaðir veiti þjónustu til nærliggjandi sveita, sjávarþorpa og sveitaþorpa, verði í nánu samstarfi og veiti alla þjónustu sem á staðnum er án þess að draga til sín fólk og fyrirtæki. 
 1. Að efla tengslanet við smærri byggðakjarna og sveitir þannig að kaupstaðir nærist á öflugum sveitum og öflugum smærri byggðakjörnum en sogi ekki allt til sín.

 

Borgir.

Markmið byggðastefnu eru

 1. Að borgir skuli vera sjálfbærar að öllu leyti.
 1. Að borgarsamfélag styðji við bakið á öllum öðrum byggðamynstrum í landinu. Þar byggist upp sérhæfingin sem stendur ekki undir sér í dreifðari byggðum.
 1. Að borgirnar nærist á öflugum nærsveitum en sogi ekki allt og alla til sín. Með öflugu tengslaneti við nærsveitirnar eflist borgirnar.
 1. Að gera borgir að mannlegum búsetukosti.

 

Markmið.

Markmið byggðastefnu eru

 1. Að veita öllum landshlutum sama rétt til búsetu.
 2. Að enginn þurfi að ferðast um langan veg til að sækja eðlilega grunnþjónustu.
 3. Að stofnanir séu til fyrir fólkið en ekki að fólkið sé til fyrir stofnanirnar.
 4. Að börn og unglingar geti dvalið eins lengi í foreldrahúsum og eða í heimabyggð og kostur er og foreldrar þurfi ekki að flytja búferlum til að fylgja börnum sínum í skóla.
 5. Að jafna lífsgæði eins og kostur er
 6. Að efla byggð um allt land með fjölbreyttu atvinnumynstri, með markvissri byggðastefnu, með samvinnu íbúanna og síðast en ekki síst ákvarðanatöku heima fyrir, að heimamenn séu sjálfum sér nógir með fjármagn og athafnir.
 7. Að enginn þurfi að aka meira en 150 km til að sækja góða þjónustu. Eða ferðast í meira en þrjár klukkustundir til að sækja sérfræðiþjónustu. Akstur + flug.
 8. Að veita öryggi fyrir alla íbúa landsins án tillits til búsetu.

Útskýringar.

Það er ljóst að til að ná þessum markmiðum þarf að skipuleggja landið í þjónustueiningum.

Hver þjónustueining þarf að vera í takti við þann fólksfjölda sem hún á að þjóna.

Grunnþjónusta sem þarf að skilgreina er t.d. læknisþjónusta, öldrunarþjónusta, skólar á sem flestum skólastigum, banki, félagsþjónusta og samgöngur.

Til að þetta geti staðið undir sér þurfa byggðirnar að hafa tekjustofna í samræmi við þá þjónustu sem þær veita.

Það er einnig staðreynd að þar sem börn þurfa að yfirgefa heimili sín á mótunarárum sínum, snúa þau síður til baka aftur.

Skólaganga eftir grunnskóla tekur um átta ár og það mótar lífsskoðanir þeirra og líklegra að þau snúi ekki til baka í heimabyggð.

Það er talað um jafnrétti til náms á Íslandi en staðreyndin er sú að það telst ekki jafnrétti þegar þeir sem búa í dreifbýli þurfa að yfirgefa átthagana til að stunda grunnskólanám.

Búsetu á íslandi þarf að skipta upp í flokka til að meta aðstæður íbúa hvar sem er á landinu. Innan hvers flokks þarf að meta hvaða þjónusta á að vera innan ákveðins ramma til að auðvelda mat á byggðaþróuninni og einnig hvernig ívilnanir ættu að vera eða ekki vera.

Fólk velur sjálft hvar það vill setjast að og taka sér búsetu. Þá er gott að vita að hverju fólk getur gengið sem vísu hvort sem er til góðs eða ekki. Þá er einnig ekkert sem kemur á óvart þegar fólk hefur sest að.

Skipting eða flokkar.

Útfærsla

 1. Þessi flokkur gæti heitið dreifbýlisflokkur. Í hann falla allar sveitir, lögbýli. Einnig íbúar í sveita- og sjávarþorpum með undir 50 íbúa.

1a.  Íbúar geri sér grein fyrir að þjónusta verði takmörkuð. Ekki verði hægt að vera með grunnskóla fyrir færri nemendur en 10 en annars þarf að sameina skóla í næsta kjarna. Einnig er borin von að framhaldsskóli byggist upp á svo fáum nemendum.

1b. Ef sameina þarf skóla má ekki vera lengri akstur en svo að börn verði að hámarki 1 klukkustund í skólabíl á degi hverjum.

Ekki er ásættanlegt að börn undir 16 ára aldri eyði meiri tíma til milliferða til að komast til og frá skólastað. Ef aksturstími er lengri hefur það neikvæð áhrif á tómstundir og fjölskyldur.

1c.  Heilsugæsla og velferðarþjónusta verði til staðar í næsta byggðakjarna. Ekki skal gera ráð fyrir að þetta sé sjálfsagt í svo fámennum byggðarlögum. Þó skal þess gætt að hægt sé að sækja þessa þjónustu á 30 til 45 mínútum. Öldrunarþjónusta er best sett í byggðakjarna þar sem heilsugæsla og félagsþjónusta er fyrir hendi.

1d.  Öll almenn þjónusta sem veitt er á vegum sveitarfélaga skal vera til staðar fyrir íbúa í þessum flokki. Þá er eðlilegt að taka tillit til veðurfars, samgangna og þess hve strjálbýlt er.

1e.  Þessi flokkur þarf að tilheyra eða vera í samstarfi við sveitarfélag með að minnsta kosti einn kjarna eða vera með samstarfssamning við einn eða fleiri byggðakjarna.  Huga þarf að því að gera þessum byggðum kleift að sækja þjónustu um sem stystan veg og sækja í kjarna sem er í öðru sveitarfélagi án skerðingar, hátti svo til að það sé styttra.

1f. Byggðakjarnarnir hafi það að stefnu sinni að efla byggðirnar í kringum sig eins mikið og kostur er því kjarni sem ekki hefur sterkt bakland í kringum sig étur sig innan frá.

 1. Flokkur - Kjarnar. Þessi flokkur nær yfir íbúa í þéttbýli með 50 – 5000 íbúa.

2a. Kjarnar verða ekki til nema með sterkum jaðarbyggðum og öflugum einingum í flokki 1. Þar sem um er að ræða tvö þéttbýli sem standa nálægt hvort öðru þarf að huga að mörgu t.d hvernig þjónusta er fyrir á stöðunum og hvað er best að byggja upp. Þá er einnig möguleiki að bæði byggðalögin séu kjarnar.

Það er ekki sjálfgefið að allt þéttbýli í þessum flokki sé kjarnar. 

2c.  Í kjarna þarf að vera fjármálastofnun sem þjónustar nágranabyggðirnar af kostgæfni.  Það er einhver misskilningur í gangi að fjármálastofnanir þurfi að vera stórt öflugt hús með mörgum peningaskápum og mörgum skrifstofum sem stjórnendur sitja inni á. Bankaútibú getur starfað í einu horni með skrifborði og góðri tölvutengingu við aðalútibúið.

Vandamál tölvukynslóðarinnar er að hún heldur að allir kunni á tölvu og geti framkvæmt allt í gegnum heimabanka. Misskilningur. Fólk í dreifbýli kynnir sér tölvunýjungar síður en aðrir og þarf jafnan að fara um langan veg til að komast á námskeið í tölvunotkun.

2d.  Í hverjum kjarna þurfa heilsugæsla, heimahjúkrun öldrunarþjónusta, félagsþjónusta og heimahlynning að vera undir sömu yfirstjórn verklega og fjárhagslega. Þannig næst samræming á allri þjónustu sem þarf að veita og einnig er mat á þjónustu auðveldara. Með þessu fyrirkomulagi verður rekstur þessa málaflokks á einni hendi og hagræðing auðséð.

2e.  Skóli er eitt af því sem tilheyrir kjarna. Góður grunnskóli er lámark og einnig ætti að vera framhaldsskóli, mætti vera útibú frá stærri skóla í öðrum kjarna eða skólasetur.

Markmið allra skóla ætti að vera að búa til góðan vinnustað fyrir nemendur með framsækið og gott nám. Háskóli er of stór biti fyrir kjarna og því ekki hluti hans. Leikskólar eru eins og nafnið segir hluti skólakerfis og ættu þar af leiðandi að vera hluti skólakerfisins.

2f.  Stjórnsýsla er eitt af því sem ætti að tilheyra kjarna en til að jaðarbyggðir veslist ekki upp þarf stjórnsýslan að skoða hvaða stoðir gætu verið í dreifbýli og eru kannski betur komnar þar.

 

 1. Flokkur - byggðalög með 5001 eða fleiri íbúa.

3a.  Það eru ekki mörg byggðarlög á Íslandi með fleiri en 5000 íbúa.  Hlutverk þessara byggðakjarna er stórt og ábyrðarmikið. Þessir kjarnar eru sjálfum sér nógir á flestum sviðum og eflast á stærð sinni. Þó eru þess merki að þeir þurfi á smærri einingunum í kringum sig að halda til að eflast enn betur. Því er nauðsynlegt að kjarnarnir efli byggðirnar í kringum sig frekar en að soga allt til sín.

3b. Allt sem tilheyrir kjarna þarf að vera til staðar í þessum flokki að auki er æskilegt að sérfræðiþjónusta sé til staðar og einnig stærri fjármálastofnanir. Þá ættu menntastofnanir á öllum stigum að vera til staðar ásamt góðri velferðarþjónustu.

3c. Þessir byggðakjarnar standa best ef þeir veita góða og öfluga þjónustu til nærliggjandi byggðalaga og reyna eftir fremsta megni að styrkja nágrannabyggðirnar og dreifbýlið í kring um sig.

 Öll byggðalög þurfa á öðrum að halda til að eflast og dafna á góðan máta.

 1. Flokkur - Höfuðborgarsvæðið.

4a.  Reykjavík er vel sett með það sem hún hefur. Hún dafnar vel vegna þess að í nágrenninu eru mjög öflugir og stórir byggðakjarnar. Nú er svo komið að næstu bæir nærast vel af nálægðinni við höfuðborgina og eru farnir að eflast af sjálfum sér.

4b. Höfuðborgin og nágrenni er með meginþorra íbúa landsins og einnig með flestar sameiginlegar stofnanir sem eru í eigu okkar allra. Þar er einnig menningin mest og best ásamt mest öllu fjármálalífi landsins. Þá eru flestir sérfræðingar samankomnir á þessum hluta landsins sem er ekki einu sinni miðsvæðis á landinu heldur á suðvesturhorninu og mjög mislangt fyrir íbúa landsins að sækja þjónustu þangað.

4c.  Þar sem mikið af þjónustu er greitt úr sameiginlegum sjóðum er spurning hvort ekki sé auðveldara að færa til sérfræðingana heldur en alla sem á þjónustunni þurfa að halda. Mikið af allri þjónustunni eru viðtöl sem flest allir þurfa að mæta í áður en t.d. aðgerð á sjúkrastofnun er orðin af veruleika. Þá eru einnig mest metnu menntastofnanir landsins á suðvesturhorninu og því þarf landsbyggðarfólk að greiða fyrir uppihald barna sinna í skólum þar, kjósi þau langskólamenntun.

Spyrja má hvort hagkvæmara sé, að senda einn sérfræðing til þeirra sem á þurfa að halda, eða að allir þurfi að koma sér á suðvesturhornið til að nálgast þá sérfræðiþjónustu sem þar er í boði.

4d. Það er sjálfsagt að öll stærri og sérhæfðari þjónusta sé í stærsta byggðarkjarna landsins en það er ekkert sem segir að hún þurfi að vera föst þar.

  

Niðurstöður.

Ísland er að færast í það horf að vera fjölmenningarsamfélag.

Virðum það og viðurkennum.

Til að íbúar landsins dafni og landið okkar dafni þarf allt að haldast í hendur.

Velferð, umburðarlyndi, uppeldi og menntun barna okkar, atvinna og húsnæði.

Velferð: 

Að öllum líði vel, enginn sé settur hjá og allir fái að tjá sig eins og þeir kjósa.

Umburðarlyndi:

Að allir sýni umburðarlyndi gagnvart náunganum og öðruvísi hugsunarhætti.

Einnig gagnvart náttúrunni og landinu okkar.

Menntun og uppeldi:

Að börnin okkar fái að menntast eins nálægt heimilum sínum og kostur er. Að réttur barna sé virtur og að börn fái að tjá sig um eigin málefni. Að uppeldi barna sé virt og skoðanir barna séu virtar. Að framgangur náms verði tekinn úr höndum atvinnulífsins og færður inn í skóla. (Meistarakerfið aflagt).

Atvinna:

Að réttur til atvinnu og atvinnusköpunar sé virtur. Að allir hafi sama rétt til atvinnusköpunar.

Að atvinnusköpun sé gert jafnt undir höfði hvar sem er á landinu.

Í dag er sjóður sem sér um íbúðalán hann sér til þess að allir fái lán á sömu kjörum.

Í atvinnulífinu er ekki sömu sögu að segja. Þar eru lán mjög mismunandi og erfitt er fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á landsbyggðinni að fá lánafyrirgreiðslu.

 Húsnæði: 

Húsnæði er ein af forsendunum fyrir byggð.

Auðvelt er að byggja upp húsnæði í þéttbýli en í dreifbýli er allt aðra sögu að segja.

Veðsetning er í öðrum flokki og kostnaður við að byggja stendur ekki undir verðmati úti á landsbyggðinni.

Það er því eðlilegt að færri leggi út í það ævintýri sem fylgir því að byggja húsnæði úti á landi.

Öllum sé gefin kostur á að hafa þak yfir höfuðið.

Lokaorð.

Byggðastefna er ekki skrifuð fyrir dreifbýlið á Íslandi heldur landið allt og þá sem byggja landið. Íbúar þurfa að vita að hverju þeir ganga þegar valin er búseta og jafnvel fjárfest til framtíðar. Því er nauðsynlegt að byggðastefna sé skrifuð af íbúunum sjálfum og taki ekki breytingum eftir pólitískum sveiflum.

Fundarboð

Aðalfundur Landsbyggðarinnar lifi 2018 verður á Egilstöðum 3. nóvember n.k.

HNSL og Nordregion voru með fund á Dalvík 20. apríl 2018

 

European Rural Parliament

Þriðja Dreifbýlisþing Evrópu var haldið í Venhorst, Hollandi í október 2017. Ályktanir frá þinginu eru undir heimasíðu þess:

http://europeanruralparliament.com/

Ályktun 2017 á íslensku

Persónuafsláttur

Gamalt en gott!

Ályktun frá aðalfundi samtakanna Landsbyggðin lifi 2014, haldinn 28. september á Árskógsströnd í Dalvíkurbyggð.

Aðalfundur samtakanna Landsbyggðin lifi leggur til að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að skattleysismörk verði jafnhá og lágmarksframfærsluviðmið einstaklings eins og þau eru metin af Velferðarráðuneytinu.  Það hlýtur að flokkast undir mannréttindi að vinna að þessu markmiði.